Gamalt vísukorn

Andann drögum alla daga
og dulið fáum hreint ekki neitt
er það síðan segin saga
að síst vér getum feimninni beitt.

Annar er andardrátturinn
sem óðfluga súrefni veitir
bænin, hún er sá hátturinn
sem hjálpar oss að vera teitir.

En trúðu mér! Að teiti sú
hún tileinkuð verður að vera
herranum sjálfum. Heyr mig nú
við hann sambandið gott reyn gera.    (Ort á annan í jólum 1988)

 

Ég flutti þetta víst á nýársfagnaði KSS (Kristilegra skólasamtaka) 1. janúar 1989. Ég man að vísu ekkert eftir því en ég á blöð síðan ég undirbjó þetta til flutnings. Þar lét ég fylgja vísunni þessi orð:

Það sem ég vildi beina athyglinni að með þessu er:

  • Hvað er að vera teitur/glaður í Drottni?
  • Er það ekki að líta björtum augum á lífið í trausti þess að Guð stendur við sín fyrirheit?
  • Hvernig lifum við?
  • Með því að anda, ekki satt?
  • Hvernig lifum við Drottni?
  • Með því að biðja!
Skýringar einstakra vísuhluta:
  • Feimnin - við getum ekki stöðvað andardráttinn með því að vera feimin við að anda. Lýtur bænin lýtur sama lögmáli? 
  • Teitur = glaður, kátur. Af því er dregið orðið teiti = gleði / gleðskapur. Á þessum árum var í tísku að reyna að íslenska "partý" með því að segja "teiti" í staðinn.
  • Reyn = reyndu. Reyndu að hafa sambandið við Guð gott.

Vonandi getur þetta skapað einhverja umræðu. Hún þarf ekki að vera bara já og amen og hallelúja - við göngum í gegnum þrengingar og áleitnar spurningar hljóta að vakna, getum við einfaldlega treyst Drottni, kunnum við að treysta honum, virkar það, hvað er að treysta honum?

En eitt skilyrði set ég. Allir sem vilja leggja orð í belg þurfa að sýna kurteisi og virða okkur hin. Þetta tek ég fram vegna þess að ein athugasemd barst við síðustu færslu (Kristið blogg / kveðja eftir bloggfrí) sem engan veginn er prenthæf. Ég leyfi henni að standa en eftirleiðis mun ég þurrka út slíkan dónaskap.

Lifið heil.


Kristið blogg / kveðja eftir bloggfrí

Ég hef gert hlé á því að blogga um langt skeið.

Fyrir nokkrum dögum minnti vinur minn mig á að einu sinni var ég mjög ötull á spjallþráðum að ræða trúmál og skrifast þar á við fólk sem hafði ýmsar skoðanir. Sumir vildu bara svör og ég gerði mína tilraun. Aðrir gagnrýndu trúna og ég reyndi að rökræða eftir getu og nennu. Gaman upp að vissu marki, auðvitað verðum við að muna að við breytum ekki svo auðveldlega skoðunum annarra. En sumir vilja einhvern til að rökræða við.

Ætti ég að reyna þetta aftur - og þá hér?

Bara pæling. Skyldi einhver lesa þetta blogg hvort sem er? Sérstaklega eftir svona hlé ...


Pólitískar ráðningar - spilling eða ill nauðsyn?

Samtrygginguna burt, sagði frambjóðandi fyrir skömmu á fundi meðal framsóknarmanna í Reykjavík, og hlaut kröftugt lófaklapp fyrir. Við vorum sammála þessu.

Öllum finnst okkur daunillur fnykur af því þegar ráðningar á vegum stjórnsýslunnar ganga augljóslega meira út á flokksskírteinið eða pólitíska goggunarröð heldur en hitt hvort umsækjandinn var sá hæfasti. Við munum þegar Árni Matt skipaði Þorstein Davíðsson (Oddssonar) héraðsdómara. Svo reynir Árni að réttlæta gerðir sínar og segja að þetta sé fullkomlega eðlilegt. Líkist hann nokkuð keisara í engum fötum?

Við gerum bara meiri kröfur til ráðningar þegar við finnum nasaþef af pólitík og klíkuskap.

Má ráða flokksbundna menn í störf?

Við skulum snúa þessu við - má meina einhverjum að ganga í stjórnmálaflokk?

Ef það má ekki, þá er ósanngjarnt að ætlast til að öll opinber störf séu aðeins fyrir fólk sem ekki á aðild að stjórnmálaflokkum.

Hins vegar þarf að móta skýrar verklagsreglur um það innan stjórnmálaflokka, hvernig skal standa að ráðningum þegar flokka- og klíkutengsl geta verið til staðar.

Jafnframt þurfa þessar reglur að vera raunhæfar en ekki skýjaborgir. Það þýðir lítið að lofa öllu fögru um enga samtryggingu en svo vandast kannski málið þegar flokksbundnir sækja um störf!

Meiri kröfur til ráðningar ef hún lyktar af pólitík

Ég vil til dæmis gjarnan að minn flokkur, Framsókn, eigi frumkvæði að þessu á flokksþinginu um næstu helgi, með því að samþykkja ályktun um að slíkar reglur verði samdar fyrir flokkinn.

Í slíkum reglum vil ég tvo hornsteina:

  1. Geti ráðning talist pólitísk (flokka-/klíkutengsl) þá skal gera meiri kröfur til hæfni þess sem er ráðinn en ella væri. Hæfni hans til starfans verði að vera óumdeild.
  2. Af þeim ráðningum sem hver ráðherra (eða annar kosinn vinnuveitandi) á vegum flokksins annast, skal meirihlutinn vera hafinn yfir allan grun um pólitískt plott. Með öðrum orðum: Sá hæfasti ráðinn, burtséð frá flokksskírteinum.

Hvað ef ein "mýtan" væri sönn þó hinar væru það ekki?

Þessi orð eru úr samtali milli J.R.R. Tolkiens og C.S. Lewis (höfundar Hringadróttinssögu og Narníu).

Þeir voru fræðimenn og störfuðu við sama háskóla, og urðu fljótt vinir er þeir kynntust. C.S. Lewis var gallharður á því þá að trúarbrögð væru "mýtur", rétt eins og sögur um álfa og tröll, eða sögur um Þór og Loka, eða sögurnar um hinn heilaga gral.

Þá spyr Tolkien: "Hvað ef ein "mýtan" væri sönn þó hinar væru það ekki?"

Vill einhver giska á hvaða áhrif þessi orð höfðu á Lewis?


Gjaldeyrismálin leyst - nýr banki - við erum rík!

Í gærkvöldi, áður en ég fór á næturvaktina sem ég er á núna, tók ég þátt í að stofna nýjan banka á Skagaströnd, sem er heimabyggð mín. Þetta er tvímælalaust snjallasta bankahugmynd sem reynd hefur verið. Vandamálin með ónýta krónu eru gersamlega úr sögunni.

Samkvæmt meðfylgjandi hlutabréfi er ég svo ríkur að eiga ráðandi hlut í þessum banka og er hann metinn á 1000 bros. Ég spái því að gengið verði komið upp í 1000 milljarða innan tíðar, þetta er svo markaðsvæn hugmynd.

Það besta af öllu er að samkvæmt regluverkinu getur bankinn ekki orðið gjaldþrota.

Býður einhver betur?


Jesús og við - sama afmælið

Fyrst við Íslendingar eigum sama dag og Jesús, er þá ekki upplagt að auka samskiptin?

Ójá, alveg rétt, það heitir víst að biðja og svoleiðis.. oh, svo auðvelt að ætla að vera nú duglegur að biðja en standa sig að því einn dag eftir annan að lítill tími fór nú í slíka samverustund með besta vininum (ef þá nokkur).

Sem betur fer er þessi vinur ótrúlega þolinmóður.

Ég legg samt til að við gerum eitthvað í þessu .. kannski að mæta á Alfa-námskeið og hressa við trúarlífið .. þetta er eins og maður er duglegri að mæta í sund eða líkamsrækt ef maður hefur félaga ..

Mæli þó ekki með því að við förum að biðja bænina sem ég kenndi í seinasta pistli, hún er meira svona til gamans..


mbl.is „Jesús fæddist 17. júní“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig auðjöfrar eiga að hugsa og biðja (eða þannig)

Þessi bæn er talsvert óvenjuleg:

Ó Drottinn, þú veist að ég á níu fasteignir í Kópavogi og ég hef einnig fest kaup á fasteign á Ísafirði, ég bið þig að varðveita bæði Kópavog og Vestfirði frá eldi og jarðskjálftum og þar sem ég á veð í eign í Fjarðabyggð, bið ég þig einnig að líta miskunnaraugum til þess héraðs, en hvað varðar hinar sýslurnar máttu fara með þær eftir þínum vilja.

Ó Drottinn, gefðu að bankinn geti starfað eðlilega og afgreitt reikninga skuldunauta minna og gefðu að þeir séu allir góðir menn. Gefðu giftusama ferð og góða heimkomu skipinu Hafmeyjunni, því að ég hef tryggt það. Og eins og þú hefur sagt að dagar hinna illu skuli stuttir verða, treysti ég á þig, að þú gleymir ekki þessu loforði þínu, þar sem ég hef fest kaup á erfðarétti að fasteign sem mun falla mér í skaut við andlát þessa siðspillta unga manns, hr. J.L.

Varðveittu vini mína frá drukknun og mig frá þjófum og innbrotum og gerðu alla þjóna mína svo heiðarlega og trúfasta að þeir gæti hagsmuna minna og svíki aldrei út úr mér eignir, hvorki nótt né dag.

Fengin úr Alfa-kennsluefni, sjá Spurningar lífsins, bls. 72-73. Staðfært upp á íslenskar aðstæður.

Hvernig líst ykkur á þetta hugarfar?


Er íþróttaþjálfari að bjóða sig fram til formennsku í Framsókn?

Ég er forvitinn að vita meira um Höskuld Þór sem gefur kost á sér. Veit ekki mikið um manninn. Mér fannst ég sjá einhverjar myndir þegar ég leitaði á vefnum sem gætu bent til þess að hann hefði þjálfað íþróttalið. Veit einhver meira um þetta?

Kannski þyrftum við bara góðan þjálfara. Veitir ekki af að efla flokksandann.

Ég tek þó fram að ég veit sáralítið um manninn. Þegar hér er komið sögu hafa tveir auk hans gefið kost á sér. Annar þeirra er Páll Magnússon, sem margir meðal almennings munu tengja við ákveðnar klíkur. Við þyrftum formann sem kemur ekki úr slíkum jarðvegi. Hinn - ég man ekki hvað hann heitir - getur varla komið sterklega til greina.

Spennandi að sjá hvort fleiri blandast í slaginn. Sumir stinga upp á Óskari Bergssyni og aðrir upp á Siv. Hvað verður?


Breyta skráningu í trúfélög - gott mál!

Mér finnst bara sjálfsagður hlutur að það eigi að breyta þessum lögum sem Jafnréttisstofa er að gera athugasemd við. Óþarfi að skráningin sé sjálfvirk; foreldrar eiga að sjá um að skrá barnið í trúfélag ef þau óska þess. Fyrir þá foreldra sem láta skíra eða blessa börnin sín í kirkju þá gæti kirkjan boðið upp á slíka skráningu við það tilefni og foreldrar undirritað beiðni um það.


mbl.is Sjálfvirk skráning í trúfélög andstæð jafnréttislögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða mótmæli virka?

Þegar við drögum mótmæli niður á þetta plan, þá missa þau broddinn.

Það eru til mjög sterk dæmi um það erlendis frá að hópar þurftu að mótmæla grófum mannréttindabrotum. Svartir í Bandaríkjunum og síðar í Suður-Afríku, Indverjar þegar þeir börðust fyrir sjálfstæði sínu undir forystu Mahathma Gandhi, Pólverjar sem fóru í verkföll undir forystu Lech Walesa, sem löngu síðar varð forseti.

Þau mótmæli sem var erfiðast að hundsa einkenndust af því að mótmælendurnir sýndu stillingu, fóru friðsamlega fram en sýndu einbeittan vilja til að láta hlusta á sig. Mótmæltu aftur og aftur þangað til þeir höfðu betur. Fyrst var þetta erfitt en dropinn holar steininn. Vatnsdropinn lætur hins vegar ekki mikið yfir sér og það hafa ekki allir þessa þolinmæði.

Þeir sem missa sig í æsing, múgæsing og svo framvegis, þeir tapa eyrum flestra. Flestir eru fyrir að það sé hægt að talast við og hrista höfuðið þegar ofstopinn talar hærra en rök og skynsemi.


mbl.is Siv: Vildi helst hlaupa í felur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Einar Sigurbergur Arason

Höfundur

Einar Sigurbergur Arason
Einar Sigurbergur Arason
Guðfræðingur, býr á Blönduósi, framsóknarmaður, hef gaman af pælingum og umræðum, góðum bókum og mörgu fleiru.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Hlutabréf í nýja Gleðibankanum á Skagaströnd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband