Jesús og við - sama afmælið

Fyrst við Íslendingar eigum sama dag og Jesús, er þá ekki upplagt að auka samskiptin?

Ójá, alveg rétt, það heitir víst að biðja og svoleiðis.. oh, svo auðvelt að ætla að vera nú duglegur að biðja en standa sig að því einn dag eftir annan að lítill tími fór nú í slíka samverustund með besta vininum (ef þá nokkur).

Sem betur fer er þessi vinur ótrúlega þolinmóður.

Ég legg samt til að við gerum eitthvað í þessu .. kannski að mæta á Alfa-námskeið og hressa við trúarlífið .. þetta er eins og maður er duglegri að mæta í sund eða líkamsrækt ef maður hefur félaga ..

Mæli þó ekki með því að við förum að biðja bænina sem ég kenndi í seinasta pistli, hún er meira svona til gamans..


mbl.is „Jesús fæddist 17. júní“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Auka samskiptinn ?

En Jesú dó fyrir um 1940 árum síðan. Það er ekki hægt að eiga samskipti við látið fólk.

Eigum frekar samskipti við fólkið sem við elskum og þá sem minna mega sín,  við þá sem við virðum og við þá sem þurfa á samskiptum okkar að halda.

Það er komin tími að þessi mýta um Jesú fari að lognast út.

Óttar (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 17:18

2 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Og hvernig veist þú, Óttar, að sá sem er látinn geti ekki lifnað á ný? Áttu einhverjar sannanir fyrir því?

Einar Sigurbergur Arason, 12.12.2008 kl. 01:10

3 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Við erum gjörn á það að hugsa ekkert út fyrir kassann sem við erum vön. Einu sinni trúðu menn því að jörðin væri flöt eins og pönnukaka. Ef ég væri uppi á þeim tíma og spyrði:

"Hvernig veist þú að jörðin er flöt? Getur þú sannað það?"

hvaða viðbrögð haldið þið að ég myndi fá?

Fæ ég kannski sömu viðbrögð við spurningunni: "Hvernig veist þú, Óttar, að sá sem er látinn geti ekki lifnað á ný? Áttu einhverjar sannanir fyrir því?"

Einar Sigurbergur Arason, 12.12.2008 kl. 01:13

4 identicon

Sæll aftur

Ég veit það svo sannarlega ekki og hef engar sannanir. En ég hef heldur engar sannannir fyrir því að Batman sé til. Þegar sannannir koma þá skal ég trúa. En þagnað til vil ég lifa eftir öðrum forskriftum.

Flöt jörð er ekki gott dæmi þar sem sú hugsun undirstrikar lokaðan heimsmynd hjá trúarbrögðum. Fólk sem lifir eftir reglum vísindanna aðhyllist opinni heimsmynd. Þess vegna er ég alltaf tilbúinn að breyta skoðunn minni í þá átt sem vísindin færa okkar.

Það ert þú sem þarf að hugsa út fyrir kassann því sá kassi verður sífellt minni á tímum upplýsingar og vísinda. 

Óttar (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 23:43

5 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Það eru fleiri kassar til, Óttar, en ég þakka góðan hug.

Jú, flöt jörð er gott dæmi. Veistu Óttar, það var ýmis vísindaleg þekking til staðar á þeim tíma. Og út frá þeirri þekkingu sem menn töldu sig hafa, fylltust þeir hroka. Þeir töldu sig geta fullyrt út yfir þann kassa sem þeir gátu þreifað á.

Hefurðu lesið C.S. Lewis?

Þekktastur fyrir að vera vinur Tolkiens og vera höfundur Narníu. En skrifaði mestmegnis heimspekilegar pælingar. Veistu hvað gefur pælingum hans mesta dýpt?

Hann er alltaf tilbúinn að hugsa út fyrir kassann sinn. Veistu hvers vegna?

Þegar þeir Tolkien kynntust, var Lewis trúleysingi. Mjög heiðarlegur í því, hann sá bara ekki ástæðu til annars.

Þeir Tolkien ræddu stundum um mýtur (=þjóðsögur, helgisögur, goðsögur og þess konar óstaðfestanlegar sagnir). Mikið áhugamál þeirra beggja. Hringadróttinssaga Tolkiens er gott dæmi um það.

Lewis áleit öll trúarbrögð vera bara einfaldlega dæmi um mýtur. Ertu sammála honum?

Tolkien sagði: "Hvað ef ein mýtan væri sönn, þó hinar væru það ekki?"

Lewis fór að hugsa út fyrir kassann sinn - og hann fann ekkert svar við þessu annað en að það er engin leið að útiloka það. Bókin "Miracles" sýnir vel þankagang hans um þetta. Hún er rökræða um það, hvort tilvist kraftaverka geti talist líkleg eða ólíkleg

Ég las þessa bók í háskóla þegar ég var orðinn uppfullur efasemda um hvort trúin ætti rétt á sér.

Hann byrjar á að ræða um allar þessar kraftaverkasögur almennt - sem flestar eru mýtur, þjóðsögur, helgisögur og svo framvegis. Ósennilegt, eða hvað? En þeir sem halda fram tilvist kraftaverka myndu flestir taka undir að flest af þessu sé hugarburður. Trúin á kraftaverk innifelur ekki að meirihlutinn af mýtum sé satt. Heldur að það fyrirfinnist einstöku kraftaverk.

Prófum að staðsetja okkur 1000 ár aftur í tíma. Er Ástralía til?

Svo við notum röksemdafærslu trúleysisins:

Enginn hefur komið til Ástralíu. Enginn hefur heyrt um einhvern sem hefur farið þangað, og þó svo væri, þá væru það óstaðfestar fréttir - gæti líka verið lygasaga.

Ergo: Við höfum enga ástæðu til að halda að Ástralía sé til. Við útilokum það ekki, ef einhver vill vera svo barnalegur að halda það eða þykist hafa komið þangað. En við sjáum hvað sú trú er heimskuleg og þar sem engar sannanir verða færðar fyrir tilvist Ástralíu (hver nennir að hætta lífi sínu við að sigla svona langt til að staðfesta óljósar tröllasögur) þá finnst okkur skynsamlegast að álíta þetta tómt þvaður.

Er þetta ekki sama röksemdafærslan og þið notið til að hafna trúnni?

Einar Sigurbergur Arason, 13.12.2008 kl. 07:27

6 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Í fyrsta lagi vil ég benda á þessa flatjarðarmýtu - nánast enginn hefur trúað á flata jörð síðan á tíma Aristótelesar.

Í annan stað er afar hæpið að bera saman tilvist Ástralíu (nú á dögum) og meinta tilvist Guðs. Hver sem er getur barið Ástralíu augum ef hann svo vill - snert jörðina,  fundið lyktina, heyrt hljóðin - og borið saman við upplifun annarra. Auðvitað verður alltaf einhver munur á skynjun manna, en að mestu leyti ber sögunum saman. Guð er aftur á móti túlkaður ("skynjaður") á jafn mismunandi hátt og menn eru margir. Ef fimm manns segðust hafa komið til Ástralíu en einn lýsti henni sem eyðilandi, annar sem paradís, þriðji sem neðansjávarborg, fjórði sem risastórum kleinuhring og fimmti sem neonbleikri fingurbjörg myndi ég efast líka. Sérstaklega ef þeir segðust allir hafa séð "hina einu sönnu Ástralíu".

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 16.12.2008 kl. 00:11

7 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Í annan stað er afar hæpið að bera saman tilvist Ástralíu (nú á dögum) og meinta tilvist Guðs.

Þú tókst vonandi eftir því að ég talaði um að fara aftur í tímann, til þess tíma er enginn vissi um Ástralíu.

Auðvitað verður alltaf einhver munur á skynjun manna, en að mestu leyti ber sögunum saman.

Þetta er aðalatriði. Veistu, ég hef séð hliðstæð rök fyrir heimildagildi guðspjallanna fjögurra í Biblíunni. Þó þeim beri saman, þá eru hliðstæðar sögur um sama atvikið oft ósammála um einhver smáatriði. Passar við það að tveir sjónarvottar séu að lýsa sama atvikinu, sem þeir upplifðu hvor á sinn hátt. Samt er uppbygging þriggja guðspjalla mjög lík (Matteus, Markús, Lúkas) sem bendir til að hver höfundur hafi vitað um verk hinna. Það hefði verið freistandi að sníða af þessi ósamræmi í smáatriðunum ef þeir hefðu verið falsarar.

Eitt í viðbót: Ef þú ferð aftur í tímann í sambandi við Ástralíu, þá færð þú allt annað umhverfi hvað varðar þekkingu á fjarlægum stöðum. Þeir staðir sem eru lengst í burtu, verða goðsagnakenndir. Það er svo langt að fara, margra ára ferð með skipi, og heimildarmenn verða raupsamir og færa í stílinn. Fyrir nógu löngu síðan getur þú fundið mjög misvísandi frásögur af sama staðnum, ef hann er nógu langt í burtu.

Taktu eftir að það er sitt hvort málið hvort kraftaverk séu til eða yfirleitt hugsanleg - eða hvort nákvæmlega Guð kristinna manna sé réttur skilningur á hinu yfirnáttúrlega. Þó ég telji að hvort tveggja sé, þá tel ég að rökleiðsluna verði að skoða lið fyrir lið. Ég byrja á því hvort hið yfirnáttúrlega sé hugsanlegt, ég er ekki kominn lengra.

Einar Sigurbergur Arason, 16.12.2008 kl. 22:45

8 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Já ég hef líka séð þessi rök fyrir misræmi guðspjallanna. Hins vegar finnst mér frekar hjákátlegt að kalla Biblíuna óskeikult orð Guðs í einu orði og afsaka svo misræmið með mismunandi skynjun manna í því næsta eins og sumir virðast gera.

Ég hef verið að velta þessu fyrir mér lengi og hef komist að þeirri niðurstöðu að hið yfirnáttúrulega sé 99% ómögulegt - nema þú viljir teygja skýringuna á "yfirnáttúrulegu" yfir allt sem ekki er enn hægt að útskýra og allt sem fólk vill ekki útskýra. "Kraftaverkin" á Indlandi 1995 þar sem styttur af Ganesha "drukku mjólk" voru útskýrð á einfaldan hátt, en margir héldu áfram að trúa því  að þau væru raunverulega kraftaverk. 

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 17.12.2008 kl. 13:52

9 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég skil. En þetta er ekki niðurstaða sem Lewis væri sáttur við, og ekki ég heldur.

Ef kraftaverk eru til á annað borð, þá breytir það ekki því, að 95% af sögum af meintum kraftaverkum eru eitthvað annað. Einfaldlega ekki trúverðugar með neinu móti.

Einstöku sögur eru hins vegar trúverðugar. Þeir sem segja frá virðast heilvita fólk, ekki í einhverju ójafnvægi, ekki grunnhyggið. Nema náttúrlega að sumir kjósa að segja: Af því að hér er haldið fram að kraftaverk hafi gerst þá getur þetta ekki staðist. Þar með er ruglað saman forsendu og afleiðingu. Með öðrum orðum, ef ég gef mér þá forsendu að kraftaverk séu engin til, þá eru þau ótrúleg. Af því að þau eru ótrúleg, þá geta þau ekki staðist. Ég gef mér forsendu sem ég nota til að rökstyðja að forsendan sem ég gaf mér sé rétt! Ekki kannski sanna - en reyna að sannfæra, rökstyðja.

Ég hef heyrt ýmsa spekúlanta velta vöngum með þessu móti. Til dæmis guðfræðing sem hét Bultmann. Ég tek fram, að ég hef enga ástæðu til að ætla að þú hallist að slíkri hring-röksemdafærslu.

Og til að gæta sannmælis, skal það tekið fram, að ýmsir trúmenn eru engu betri í sínum röksemdafærslum. Því miður. Það er okkur öllum hollt að muna, hvoru megin sem við stöndum, trúar- eða trúleysis-megin, að afstaða okkar verður ekki sönnuð. Við höfum hins vegar trúfrelsi, og þar með skoðanafrelsi í öllum trúmálum. Trúfrelsið er líka frelsi til að hafna trú. Frelsi til að fylgja sinni sannfæringu.

Þú minntist á þá kenningu að Biblían sé óskeikul. Það eru til bókstafstrúarmenn (fundamentalists) sem niðurnjörva trúna í einfalt en grunnhyggið kerfi. Svo eru til íhaldssamir guðfræðingar sem álíta að Biblíuna þurfi að túlka, en fara gætilega í það. Lúther sagði einhvern tímann minnir mig að Biblían væri eins og hálmurinn í jötu Jesúbarnsins. Hún er umgerð frásagna sem eiga að kynna okkur fyrir Jesú og fyrir Guði. Við gætum tekið hálminn í burtu - en þá er okkur hollara að kasta ekki óvart Jesú með hálminum!

Þriðji hópurinn er frjálslyndir guðfræðingar sem er að vissu leyti sundurlyndari hópur - hver túlkar Biblíuna kannski nánast eins og honum hentar. Að mér finnst - en eflaust eru þarna margir heiðarlegir trúmenn fyrir því.

Sjálfur er ég íhaldssamur guðfræðingur. Ég lít á Biblíuna sem hálminn í jötunni - en ef ég ætla að fullyrða um allt í henni hvað hefur gildi í dag og hvað ekki, þá er ég að fullyrða meira en ég hef í sjálfu sér þekkingu á. Ég má hafa mínar skoðanir á því hvað gildir, við megum það öll, en það er auðveldara að segja það en gera að greina alltaf hismið frá kjarnanum.

Jæja, ég er kominn út um víðan völl, kannski til einskis gagns. Mér finnst gaman að tala um skrif C.S. Lewis, því hann er svo djúpur hugsuður, ég held að hvort sem maður er sammála honum eða ekki þá dáist maður að því hvernig hann hugsar og er snjall að koma fyrir sig orði og góðum rökum. Kannski meira um það síðar - hver veit?

Einar Sigurbergur Arason, 17.12.2008 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Sigurbergur Arason

Höfundur

Einar Sigurbergur Arason
Einar Sigurbergur Arason
Guðfræðingur, býr á Blönduósi, framsóknarmaður, hef gaman af pælingum og umræðum, góðum bókum og mörgu fleiru.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Hlutabréf í nýja Gleðibankanum á Skagaströnd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband