Framsókn þarf að höfða til fólksins

Eftirfarandi pistill var fyrst birtur á bloggsíðu Friðriks Jónssonar, sjá hér.

Ég er sammála Héðni Björnssyni að stjórnin 1995-2007 er meira vandamál fyrir Guðna en gamlir tímar almennt séð. Guðni er fínn kall, en vandamál hans og flokksins er að kjósendum finnst við ekki í takt við fólkið í landinu.

Hvernig getum við breytt því?

1. Við framsóknarmenn þurfum að finna nýjan takt, sem nær til almennings, og við þurfum að vera duglegir að tala í fjölmiðlum. En það mikilvægasta í þessu er trúverðugleiki. Það er alltaf nærtæk freisting að lenda í tækifærismennsku þegar maður hugsar um að verða vinsæll. Kjósendur eru minnugir brambolts í höfuðborgarmálum sem stimplar okkur fyrir tækifærispólitík. Núna biður almenningur um heiðarlegt stjórnmálafólk í staðinn.

Ég vil að við verðum þekkt fyrir:
- heiðarleika
- skynsemi
- auðmýkt (ekki hroka), að við kunnum að viðurkenna mistök þegar við á, líkt og Steingrímur Hermanns á sínum tíma
- opna umræðu
- einingu, ekki flokkadrætti
- sparsemi, góða meðferð peninga

Fólk vill ekki bara stjórnmálamenn sem hafa rétt fyrir sér. Heiðarlegur stjórnmálamaður verður miklu ástsælli, jafnvel þó hann hafi stundum á röngu að standa. Steingrímur kallinn var mistækur en hann var ástsæll fyrir það lítillæti að þora að viðurkenna mistök. Halldór Ásgríms var þekktur að vandvirkni, en samt náði hann ekki til þjóðarinnar, og ekki til mín, nema rétt fyrst.

2. Við þurfum að geta teflt fram hæfu forystufólki í öllum kjördæmum, sem talar skýru máli og getur náð til kjósenda. Ég get nefnt þingmenn sem ég kann að meta, til dæmis Birki Jón og Magnús Stefánsson. Ég hef líka gaman af Bjarna Harðar, þó hann sé mistækur eins og Steingrímur H. Við þurfum ekki að vera jábræður upp til hópa, en við þurfum að verða þekkt fyrir heiðarleika og þekkingu.

3. Ég sakna Jóns Sigurðssonar. Hann var mjög lýðræðislegur leiðtogi og íhugaði mál vel. Og sú endurskoðun sem flokkurinn gekk í gegnum á hans stutta formannstíma var til góðs, þar sem stuðningur við Íraksstríðið var viðurkenndur sem mistök. Verst að hann er trúlega ekki fáanlegur í formennskuna aftur á meðan hann er utan þings. Ég held að það væri skynsamlegt að skora á hann að leiða aftur framboðslista í Reykjavík, hann ber með sér þennan heiðarleika sem fólk saknar úr stjórnmálunum í dag. Einhver á eflaust eftir að segja að hann hafi nú verið bankamálaráðherra á undan Björgvin, en ef rétt er á málum haldið þá stendur hann það af sér. Hvernig væri að tefla honum fram sem fjármálaráðherraefni okkar? Hvað haldið þið um það?

4. Við þurfum að vera lítillátir og viðurkenna að eflaust eigum við einhvern þátt í mistökum með setu okkar í fyrri ríkisstjórn. Við getum bent á að brekkan niðurávið kom aðallega í tíð nýju stjórnarinnar, en ef við eigum að ná eyrum almennings þá þurfum við líka að sýna auðmýkt, viðurkenna hugsanleg mistök og fara í vinnu við að skilgreina hverju við þurfum að breyta í stefnu flokksins. Stefna framsóknar frá tíma gömlu stjórnarinnar er ekki það sem mun slá í gegn.

5. Forysta flokksins: Ég er sammála þér Friðrik að það er vandi að velja nýja forystu. Misheppnaðar tilraunir í því efni gætu lýst sér eins og niðurlægingartími Alþýðuflokksins í langan tíma áður en Jón Baldvin náði að auka fylgi flokksins. Þeir voru alltaf að skipta um formenn.

Guðni og Valgerður eru bæði hæfir stjórnmálamenn, en þau eru ekki í takt við kjósendur, af því að þeir vilja ekki kjósa aftur yfir sig stjórnina sem var í 12 ár á undan þessari. Vandi þeirra beggja er sá að hafa í langan tíma verið ráðherrar í þeirri stjórn, það er það sem þau eru þekktust fyrir. Framsókn nær ekki nýjum vinsældum hjá kjósendum fyrr en flokkurinn hefur farið í gegnum endurskipulagningu þar sem kúrsinn er settur í aðra átt og það á mannamáli sem kjósendur skilja.

Sá þingmaður sem ég held að hafi mesta möguleika á að ná til almennings er Birkir Jón. Hann er mjög málefnalegur og rökvís, og kann vel að koma fyrir sig orði. Hann var aldrei ráðherra í gömlu stjórninni og gæti því slegið nýjan takt. Það eina er að hann er ungur, að því leyti væri þægilegri leið að fá hann fyrst inn í varaformannsstólinn og svo formannsstólinn síðar.

En ef okkur er þörf á að skipta um formanninn líka - eigum við þá betri kandídat? Kannski helst þá Jón Sig. En fengist hann til þess? Miðað við að maðurinn sagði af sér fyrir það að hafa ekki aðgang að ræðustólum alþingis, þá er það hæpið - nema ef til vill ef meirihluti flokksmanna myndi skora á hann til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eysteinn Jónsson

Ég held að því miður hafi gamla Framsókn gleymst sl. 20 ára eða svo í því umróti kaptalisma og græðgi sem hefur einkennt þessa áratugi.

Það sem hins vegar við verðum að minna á í dag; er að Framsókn er ekki flokkur sem er stofnaður utan um einhverjar fræðikenningar sem kenna sig við einhverskonar "isma" þar sem menn nálgast viðfangsefnin með fyrirframgefnum úrlausnar úræðum. Nei; als ekki Framsókn er stofnaður á grundvelli íslenskra gilda sem eiga rætur sínar í íslensku þjóðlífi, trú menningu og sögu.  

Framtíð þessara gilda er björt, nú er bara að tryggja það að Ný Framsókn byggð á grunni gamalla íslenskra gilda rísi á ný þjóðinni til heilla.

Viðfangsefni samtíðarinnar eru eða eiga að vera leyst með þessi gildi að leiðarljósi, á grundvelli jafnræðis, jafnréttis, félagshyggju, samvinnu, réttsýni og heiðarleika.   

Eysteinn Jónsson, 2.11.2008 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Sigurbergur Arason

Höfundur

Einar Sigurbergur Arason
Einar Sigurbergur Arason
Guðfræðingur, býr á Blönduósi, framsóknarmaður, hef gaman af pælingum og umræðum, góðum bókum og mörgu fleiru.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Hlutabréf í nýja Gleðibankanum á Skagaströnd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 461

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband