Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Niðurskurður eða markvissari nýting fjármuna? Um frábæra grein!

Það er ekki sama hvernig við minnkum ríkisútgjöld. Ég var að lesa alveg frábæra grein í sunnudags-Mogganum. Hún er líka öllum aðgengileg á vefnum (sjá hér). Ég hvet ykkur öll til að lesa hana og halda svo þingmönnum okkar við efnið, gefa þeim engan frið fyrr en þeir vinna vinnuna sína.

Þessi grein segir það sem við mörg hugsum - að flatur niðurskurður er ekki lausnin heldur að nýta betur peningana í samneyslunni. En höfundurinn rökstyður þetta snilldarlega - bæði í orðum og skýringarmyndum.

Við erum í raunverulegu hættuástandi - það eiga allir að spara alls staðar, segja upp fólki á sjúkrahúsum til að hagræða í þeim gjaldalið en heildarsparnaðurinn er miklu minni því ríkið á auðvitað að borga meiri atvinnuleysisbætur í staðinn. Þetta hljómar eins og gömlu Kleppara-brandararnir en er samt bláköld alvara. Og mig grunar að margt vistfólkið á Kleppi væri nógu skynsamt til að sjá grunnhyggnina í þessum flata niðurskurði.

Ég hvet alla til að lesa þessa grein og gera svo eitthvað í málunum, halda þessu að ráðamönnum þangað til þeir sjá að sér.


Pólitískar ráðningar - spilling eða ill nauðsyn?

Samtrygginguna burt, sagði frambjóðandi fyrir skömmu á fundi meðal framsóknarmanna í Reykjavík, og hlaut kröftugt lófaklapp fyrir. Við vorum sammála þessu.

Öllum finnst okkur daunillur fnykur af því þegar ráðningar á vegum stjórnsýslunnar ganga augljóslega meira út á flokksskírteinið eða pólitíska goggunarröð heldur en hitt hvort umsækjandinn var sá hæfasti. Við munum þegar Árni Matt skipaði Þorstein Davíðsson (Oddssonar) héraðsdómara. Svo reynir Árni að réttlæta gerðir sínar og segja að þetta sé fullkomlega eðlilegt. Líkist hann nokkuð keisara í engum fötum?

Við gerum bara meiri kröfur til ráðningar þegar við finnum nasaþef af pólitík og klíkuskap.

Má ráða flokksbundna menn í störf?

Við skulum snúa þessu við - má meina einhverjum að ganga í stjórnmálaflokk?

Ef það má ekki, þá er ósanngjarnt að ætlast til að öll opinber störf séu aðeins fyrir fólk sem ekki á aðild að stjórnmálaflokkum.

Hins vegar þarf að móta skýrar verklagsreglur um það innan stjórnmálaflokka, hvernig skal standa að ráðningum þegar flokka- og klíkutengsl geta verið til staðar.

Jafnframt þurfa þessar reglur að vera raunhæfar en ekki skýjaborgir. Það þýðir lítið að lofa öllu fögru um enga samtryggingu en svo vandast kannski málið þegar flokksbundnir sækja um störf!

Meiri kröfur til ráðningar ef hún lyktar af pólitík

Ég vil til dæmis gjarnan að minn flokkur, Framsókn, eigi frumkvæði að þessu á flokksþinginu um næstu helgi, með því að samþykkja ályktun um að slíkar reglur verði samdar fyrir flokkinn.

Í slíkum reglum vil ég tvo hornsteina:

  1. Geti ráðning talist pólitísk (flokka-/klíkutengsl) þá skal gera meiri kröfur til hæfni þess sem er ráðinn en ella væri. Hæfni hans til starfans verði að vera óumdeild.
  2. Af þeim ráðningum sem hver ráðherra (eða annar kosinn vinnuveitandi) á vegum flokksins annast, skal meirihlutinn vera hafinn yfir allan grun um pólitískt plott. Með öðrum orðum: Sá hæfasti ráðinn, burtséð frá flokksskírteinum.

Er íþróttaþjálfari að bjóða sig fram til formennsku í Framsókn?

Ég er forvitinn að vita meira um Höskuld Þór sem gefur kost á sér. Veit ekki mikið um manninn. Mér fannst ég sjá einhverjar myndir þegar ég leitaði á vefnum sem gætu bent til þess að hann hefði þjálfað íþróttalið. Veit einhver meira um þetta?

Kannski þyrftum við bara góðan þjálfara. Veitir ekki af að efla flokksandann.

Ég tek þó fram að ég veit sáralítið um manninn. Þegar hér er komið sögu hafa tveir auk hans gefið kost á sér. Annar þeirra er Páll Magnússon, sem margir meðal almennings munu tengja við ákveðnar klíkur. Við þyrftum formann sem kemur ekki úr slíkum jarðvegi. Hinn - ég man ekki hvað hann heitir - getur varla komið sterklega til greina.

Spennandi að sjá hvort fleiri blandast í slaginn. Sumir stinga upp á Óskari Bergssyni og aðrir upp á Siv. Hvað verður?


Hvaða mótmæli virka?

Þegar við drögum mótmæli niður á þetta plan, þá missa þau broddinn.

Það eru til mjög sterk dæmi um það erlendis frá að hópar þurftu að mótmæla grófum mannréttindabrotum. Svartir í Bandaríkjunum og síðar í Suður-Afríku, Indverjar þegar þeir börðust fyrir sjálfstæði sínu undir forystu Mahathma Gandhi, Pólverjar sem fóru í verkföll undir forystu Lech Walesa, sem löngu síðar varð forseti.

Þau mótmæli sem var erfiðast að hundsa einkenndust af því að mótmælendurnir sýndu stillingu, fóru friðsamlega fram en sýndu einbeittan vilja til að láta hlusta á sig. Mótmæltu aftur og aftur þangað til þeir höfðu betur. Fyrst var þetta erfitt en dropinn holar steininn. Vatnsdropinn lætur hins vegar ekki mikið yfir sér og það hafa ekki allir þessa þolinmæði.

Þeir sem missa sig í æsing, múgæsing og svo framvegis, þeir tapa eyrum flestra. Flestir eru fyrir að það sé hægt að talast við og hrista höfuðið þegar ofstopinn talar hærra en rök og skynsemi.


mbl.is Siv: Vildi helst hlaupa í felur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni farinn - ný forysta óskast

Óvænt er Guðni Ágústsson vikinn af vettvangi stjórnmálanna. Hans verður minnst sem drengs góðs, þó honum hafi ekki tekist að sameina framsóknarmenn.

Framsóknarflokkurinn er í sárum - hann er búinn að vera það um nokkurt skeið. Stefna Halldórs Ásgrímssonar var ólík því sem flokkurinn stóð fyrir áður fyrr. Nú um stundir minnast landsmenn Framsóknarflokksins sem flokksins sem spyrti sig saman við Sjálfstæðisflokkinn í heil 12 ár. Jafn lífseigt stjórnarmynstur í íslenskri stjórnmálasögu á sér aðeins eina hliðstæðu, það er Viðreisnarstjórn sjálfstæðismanna og krata 1959-71. Eftir það voru kratar í sárum fram til 1987; kjósendur kunna illa að meta til lengdar flokk sem hegðar sér sem varadekk fyrir sjálfstæðismenn. Slíkur flokkur týnir sérstöðu sinni (nema í hugum innvígðra).

Ný forysta óskast í flokknum, segi ég. Ég vil forystu sem er ekki nátengd Halldóri Ásgrímssyni eða stjórn hans og Davíðs. "Nýir vendir sópa best." Ég vil bæði formann og varaformann sem hafa eftirfarandi til að bera:

  1. Óvéfengjanlegan heiðarleika og vilja til að gera heiðarleika að höfuðmáli í íslenskri pólitík.
  2. Hæfni til að fylkja að baki sér fólki (bæði innan flokks og utan), og vera mannasættar.
  3. Tala skýru máli, við hin getum skilið af hverju við ættum að styðja þá og þeirra stefnu.

Hvað annað/fleira viljum við sjá í nýrri forystu, góðir hálsar? Vill einhver tjá sig um það?


mbl.is Horft á eftir farsælum forystumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má biðja fyrir sínum eigin stjórnmálaflokki?

Nú hef ég bæði áhuga á trúnni og stjórnmálunum. Þess vegna slæ ég fram til gamans þessari spurningu.

Öll megum við biðja. En Guð heyrir ekki allar bænir, það er að segja hann svarar þeim ekki öllum með já. Einn er kannski að biðja um fullt af snjó til að geta farið á skíði. Annar er að biðja um milt og gott veður á sama tíma og enga hálku svo umferðin sé örugg. Þarna skarast hagsmunir.

Við megum hins vegar biðja um góða hluti og treysta því að Guð heyri það á þann veg sem er fyrir bestu. Ég sé ekkert athugavert við að ég biðji fyrir flokknum sem ég er í. Framsókn er svo sem ekki vanþörf á því.

Dæmi um góða hluti sem ég má biðja fyrir í þessu efni:

  • þingmenn flokksins, viska þeim til handa og réttar ákvarðanir
  • að flokkurinn hafi hæfa forystumenn og heiðarlega
  • að þegar nýir einstaklingar komast í framboð að það sé vandað fólk sem við hin getum treyst

Og svo framvegis. Aðalatriðið er að biðja ekki eigingjarnar bænir. Þær eru ekki líklegar til árangurs, Guð hefur ekki áhuga á þeim og þær þroska okkur ekki hið minnsta. 

Þá er líka skynsamlegt og þarft að biðja fyrir ráðamönnum, hvar í flokki sem þeir standa; eins og að ríkisstjórnin megi klára þau mál vel sem nú brenna á okkur, eins og Icesave, björgunarlán, stefnumótun um framhaldið og svona. Biðja um sátt milli stjórnvalda og þjóðar og að Guð leiði það hvenær næst verði kosið, á þann veg sem verði fyrir bestu.


Draumur minn um siðferðilega vakningu í íslensk stjórnmál

Ég á mér draum um eitt og annað. Undanfarnar vikur hafa stjórnmál verið mér hugleikin, af því að mér finnst eins og mörgum Íslendingum að stjórnmálaumhverfið okkar sé meingallað.

Ég er ekki sérfræðingur í því hvaða stefna er endilega sú rétta í þessu málinu eða hinu. Hins vegar er siðferði mér hjartans mál.

Ég held að við höfum flestöll orðið fyrir miklum vonbrigðum með þá sem leiða stjórnmál landsins í dag. Mikil áföll hafa dunið yfir íslensku þjóðina og ljóst er að einhverjir sváfu á verðinum. Viðbrögð þeirra pólitíkusa sem mest heyrist í snúast ekki um að tala í okkur kjark heldur að verja fylgið sitt. Sumir segja að við eigum ekki að leita að sökudólgum, eins og Geir Haarde. Aðrir eru duglegir að benda á þá sem mesta sök bera, enda treysta þeir á að vera ekki taldir eiga mikla sök. Meira að segja annar ríkisstjórnarflokkurinn skipar sér í þá stöðu.

Ef við fengjum annars vegar fólk sem axlar ábyrgð á mistökum sínum og hins vegar fólk sem stendur upp og telur í okkur nýja von, leiðtoga sem minna á Barack Obama í því efni, þá myndi óánægjan hjaðna að miklum mun. Að minnsta kosti ef við fengjum að leiða seinni hópinn til valda fyrr en síðar.

Við náum fæst að verða slíkir leiðtogar. Við getum hins vegar tekið þátt í að mynda grasrót sem talar inn réttu hugmyndirnar um heiðarleika. Ég vil sjá kall frá slíkri grasrót eftir hlutum eins og

  • heiðarleika
  • dómgreind til að leita bestu þekkingar áður en ákvarðanir eru teknar,
  • auðmýkt til að viðurkenna mistök þegar þau hafa verið gerð og
  • einurð til að stýra á betri leið eftir mistökin.

Sjálfur er ég framsóknarmaður og þetta er það sem ég vil sjá hjá mínum flokki. Skiptir meira máli í mínum huga en hver hefur á réttu að standa í dægurþrasinu. Ef við vinnum svona, þá sköpum við góðan jarðveg handa þeim leiðtogum sem við þurfum. Hvort ætli sé líklegra að góður leiðtogi rísi fram þar sem grasrótin er heilbrigð eða þar sem allt logar í svona - "sjáðu hvað ég er góður kandídat í 2.-3. sætið.." -pólitík án þess að skýr sýn sé á hitt sem er mikilvægara?


Framsókn þarf að höfða til fólksins

Eftirfarandi pistill var fyrst birtur á bloggsíðu Friðriks Jónssonar, sjá hér.

Ég er sammála Héðni Björnssyni að stjórnin 1995-2007 er meira vandamál fyrir Guðna en gamlir tímar almennt séð. Guðni er fínn kall, en vandamál hans og flokksins er að kjósendum finnst við ekki í takt við fólkið í landinu.

Hvernig getum við breytt því?

1. Við framsóknarmenn þurfum að finna nýjan takt, sem nær til almennings, og við þurfum að vera duglegir að tala í fjölmiðlum. En það mikilvægasta í þessu er trúverðugleiki. Það er alltaf nærtæk freisting að lenda í tækifærismennsku þegar maður hugsar um að verða vinsæll. Kjósendur eru minnugir brambolts í höfuðborgarmálum sem stimplar okkur fyrir tækifærispólitík. Núna biður almenningur um heiðarlegt stjórnmálafólk í staðinn.

Ég vil að við verðum þekkt fyrir:
- heiðarleika
- skynsemi
- auðmýkt (ekki hroka), að við kunnum að viðurkenna mistök þegar við á, líkt og Steingrímur Hermanns á sínum tíma
- opna umræðu
- einingu, ekki flokkadrætti
- sparsemi, góða meðferð peninga

Fólk vill ekki bara stjórnmálamenn sem hafa rétt fyrir sér. Heiðarlegur stjórnmálamaður verður miklu ástsælli, jafnvel þó hann hafi stundum á röngu að standa. Steingrímur kallinn var mistækur en hann var ástsæll fyrir það lítillæti að þora að viðurkenna mistök. Halldór Ásgríms var þekktur að vandvirkni, en samt náði hann ekki til þjóðarinnar, og ekki til mín, nema rétt fyrst.

2. Við þurfum að geta teflt fram hæfu forystufólki í öllum kjördæmum, sem talar skýru máli og getur náð til kjósenda. Ég get nefnt þingmenn sem ég kann að meta, til dæmis Birki Jón og Magnús Stefánsson. Ég hef líka gaman af Bjarna Harðar, þó hann sé mistækur eins og Steingrímur H. Við þurfum ekki að vera jábræður upp til hópa, en við þurfum að verða þekkt fyrir heiðarleika og þekkingu.

3. Ég sakna Jóns Sigurðssonar. Hann var mjög lýðræðislegur leiðtogi og íhugaði mál vel. Og sú endurskoðun sem flokkurinn gekk í gegnum á hans stutta formannstíma var til góðs, þar sem stuðningur við Íraksstríðið var viðurkenndur sem mistök. Verst að hann er trúlega ekki fáanlegur í formennskuna aftur á meðan hann er utan þings. Ég held að það væri skynsamlegt að skora á hann að leiða aftur framboðslista í Reykjavík, hann ber með sér þennan heiðarleika sem fólk saknar úr stjórnmálunum í dag. Einhver á eflaust eftir að segja að hann hafi nú verið bankamálaráðherra á undan Björgvin, en ef rétt er á málum haldið þá stendur hann það af sér. Hvernig væri að tefla honum fram sem fjármálaráðherraefni okkar? Hvað haldið þið um það?

4. Við þurfum að vera lítillátir og viðurkenna að eflaust eigum við einhvern þátt í mistökum með setu okkar í fyrri ríkisstjórn. Við getum bent á að brekkan niðurávið kom aðallega í tíð nýju stjórnarinnar, en ef við eigum að ná eyrum almennings þá þurfum við líka að sýna auðmýkt, viðurkenna hugsanleg mistök og fara í vinnu við að skilgreina hverju við þurfum að breyta í stefnu flokksins. Stefna framsóknar frá tíma gömlu stjórnarinnar er ekki það sem mun slá í gegn.

5. Forysta flokksins: Ég er sammála þér Friðrik að það er vandi að velja nýja forystu. Misheppnaðar tilraunir í því efni gætu lýst sér eins og niðurlægingartími Alþýðuflokksins í langan tíma áður en Jón Baldvin náði að auka fylgi flokksins. Þeir voru alltaf að skipta um formenn.

Guðni og Valgerður eru bæði hæfir stjórnmálamenn, en þau eru ekki í takt við kjósendur, af því að þeir vilja ekki kjósa aftur yfir sig stjórnina sem var í 12 ár á undan þessari. Vandi þeirra beggja er sá að hafa í langan tíma verið ráðherrar í þeirri stjórn, það er það sem þau eru þekktust fyrir. Framsókn nær ekki nýjum vinsældum hjá kjósendum fyrr en flokkurinn hefur farið í gegnum endurskipulagningu þar sem kúrsinn er settur í aðra átt og það á mannamáli sem kjósendur skilja.

Sá þingmaður sem ég held að hafi mesta möguleika á að ná til almennings er Birkir Jón. Hann er mjög málefnalegur og rökvís, og kann vel að koma fyrir sig orði. Hann var aldrei ráðherra í gömlu stjórninni og gæti því slegið nýjan takt. Það eina er að hann er ungur, að því leyti væri þægilegri leið að fá hann fyrst inn í varaformannsstólinn og svo formannsstólinn síðar.

En ef okkur er þörf á að skipta um formanninn líka - eigum við þá betri kandídat? Kannski helst þá Jón Sig. En fengist hann til þess? Miðað við að maðurinn sagði af sér fyrir það að hafa ekki aðgang að ræðustólum alþingis, þá er það hæpið - nema ef til vill ef meirihluti flokksmanna myndi skora á hann til þess.


Aðeins um stjórnmálaskoðanir mínar .. á flokkurinn minn viðreisnar von?

Þessi grein er upprunalega á þessum þræði Bjarna Harðarsonar þingmanns .. sem svar mitt við öðrum athugasemdum þar.

http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/688391/#comment1855422

Sjálfur er ég framsóknarmaður, en það var ekki út á gæja eins og Halldór eða Finn eða Björn Inga sem ég gekk í flokkinn. Ég hreifst af hugsjónum flokksins á níunda áratugnum þegar Steingrímur Hermanns leiddi hann. Hann kunni að viðurkenna mistök og þessi auðmýkt hans gerði hann ástsælan þjóðarleiðtoga. Man einhver eftir betri forsætisráðherra síðan 1980 og þar til nú?

Rétt áður en Halldór sagði af sér þá var ég búinn að fá upp í kok og farinn að íhuga það alvarlega að kjósa eitthvað annað en framsókn. En þá kom Jón Sig. fram - og það var leiðtogi sem var hægt að dást að. Hann var bara allt of stutt - ég vil að við fáum hann aftur í framboð, enda sárvantar flokkinn góða og öfluga forystu í Reykjavík.

Ég kalla líka eftir því að flokkurinn endurskilgreini sig enda nýtur hann ekki trausts fjöldans eftir að Halldór &co lögðu hann í rúst. Okkur er ekki nóg að vísa til þess að þetta var einu sinni góður flokkur. Við þurfum að gera Framsókn að góðum flokki upp á nýtt, með því að

  1. Marka skýra og trúverðuga stefnu upp á fyrir hvað flokkurinn stendur núna í dag
  2. Velja traustvekjandi fólk til að vera fulltrúar flokksins og leiða lista hans í öllum kjördæmum

Seinna atriðið er það sem flestir horfa á þegar á að kjósa. Og ef okkur verður að þeirri ósk að núverandi ríkisstjórn skammist til að láta kjósa strax á næsta ári, þá er okkur eins gott að hefja verkið strax og byrja nokkurs konar kosningabaráttu nú þegar. Gera fólk áberandi í öllum kjördæmum frammi fyrir þjóðinni sem geti verið góðir leiðtogar fyrir framboðslistana.

Sumir liggja Bjarna á hálsi fyrir að vera ekki sammála restinni af flokknum og þingmönnum hans. Kæru vinir, það sem við þurfum er ekki samsafn jábræðra sem segja "já, ráðherra" við Halldór eða Guðna eða hver sem það skal vera sem leiðir okkur. Við þurfum samsafn af fólki sem aðrir treysta vegna þess að þessir einstaklingar eru heiðarlegir.

Bjarni kann að vera hvatvís, og ég er ekki alltaf sammála honum, en ég sé ekki betur en hann starfi af heilindum. Slíka menn vil ég mun frekar en forritaðar strengjabrúður sem segja "já ráðherra". Við þurfum ekki stjórnunarstíl Halldórs aftur inn, við þurfum heiðarlega og drengilega stjórnmálamenn. Og ég get nefnt fleiri góða, eins og Birki Jón Jónsson og Magnús Stefánsson. Ef við fáum Jón Sig. aftur í framboð auk þeirra, og ef okkur tekst að skilgreina hlutverk Framsóknar upp á nýtt, þá held ég að við séum tilbúin í næstu kosningabaráttu.

En ég held okkur sé sæmst að byrja að leggja þennan grunn strax, ekki síst að sækja öfluga leiðtoga fyrir kjördæmin, hugmyndavinnan tekur lengri tíma, því við vonum auðvitað að við fáum kosningar á næsta ári - það er það eina réttláta eftir að núverandi ríkisstjórn missti niður um sig. Ég er þó sammála Bofs þegar hann segir:

Hvað fellur næst? Ríkisstjórnin? - Ekki á meðan við sýnum af okkur þann aumingjaskap að setja hana ekki hreinlega af með borgaralegu valdi.

Aðeins fjöldaáskoranir geta komið núverandi stjórnarflokkum til að gera hugmynd Björns Bjarnasonar um kosningar á næsta ári að veruleika. Þessi stjórn hefur sterkan þingmeirihluta og ég held að þessir flokkar séu ekkert að hætta að vilja starfa saman. Ég held að ef nógu margar og fjölmennar kröfugöngur heimti kosningar, þá láti Samfylkingin undan þeirri kröfu.

Einar Sigurbergur Arason, 28.10.2008 kl. 03:52


Mikil umræða um framkomu Breta

Sælt veri fólk. Ég er svona að prófa að blogga, sé til hvað ég verð duglegur við það.

Það fyrsta sem leitar á hugann er atburðarás nýliðinna daga, til dæmis klaufaleg samskipti Íslendinga og Breta. Ég hef að gamni flett upp nokkrum enskum fréttasíðum, til dæmis greinum Eiríks Bergmanns Einarssonar í The Guardian, "Britain has betrayed Iceland.." og "Forced into Russia's arms". Ég þekki engin deili á þessum strák en mér finnst hann sýna gott framtak í að reyna að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri í breskum fréttamiðlum. Greinilegt er að sjónarmiðum breskra lesenda skiptir svolítið í tvö horn, sumir taka hanskann á lofti fyrir Brown og telja að Íslendingar komi fram eins og þjófar sem vilji ekki borga, aðrir sýna okkur samhug og skilning. Margir þeirra gagnrýna stjórnmálamenn almennt og telja að bæði Brown og íslenskir ráðamenn eigi að fá falleinkunn.

Ég tek undir þetta síðasttalda og held að það væri um margt góð hugmynd eins og Björn Bjarnason kom fram með í Mannamáli að það mætti kjósa á næsta ári.

Er til annar valkostur við núverandi stjórn?

Mér finnst þó líka að stjórnarandstaðan þurfi vissa andlitslyftingu. Hún þarf að bjóða upp á nokkra vel traustvekjandi leiðtoga sem má hugsa sér að geti starfað saman.

Og svo verður tæplega mynduð stjórn án þátttöku annars af þeim flokkum sem nú er í ríkisstjórn.

Hvað með Framsókn?

Sjálfur er ég framsóknarmaður, og ég hef vissar áhyggjur af mínum flokki. Hann er í tilvistarkreppu eftir margra ára forystu Halldórs Ásgrímssonar. Með fullri virðingu fyrir Halldóri þá var hann ekki sá leiðtogi sem flokkurinn þurfti. Ólýðræðislegur leiðtogi og púkkaði upp á menn eins og Finn Ingólfsson.

Því var það gleðiefni þegar Jón Sigurðsson kom inn í stjórnmálin og tók við keflinu. Hann vissi greinilega sínu viti og var leiðtogi sem getur vakið traust manna, ásamt því að vera lýðræðislegur og góður í samstarfi. Það var slæmt að missa hann úr forystusveitinni. Ef Framsóknarflokkurinn kemst aftur í ríkisstjórn í náinni framtíð þá legg ég til að Jón verði skipaður fjármálaráðherra.

Guðni er fínn karl og má alveg vera formaður mín vegna, en flokkurinn þarf að gefa til kynna að ef honum verði treyst til stórra verka á nýjan leik, þá fari ekki í sama farið og hjá Davíð og Halldóri. Að Guðni og Valgerður verði forystusveitin við næstu kosningar finnst mér ekki spennandi forysta. Bæði voru ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs.

Flokkurinn býður upp á mjög áhugaverða nýja kandídata eins og Birki Jón Jónsson og Bjarna Harðarson. Ég held að hann þurfi að gefa til kynna fyrir næstu kosningar að slíkir menn verði í framvarðarsveitinni. Og ég tel brýnt að fá Jón Sigurðsson aftur í framboð í Reykjavík.


Um bloggið

Einar Sigurbergur Arason

Höfundur

Einar Sigurbergur Arason
Einar Sigurbergur Arason
Guðfræðingur, býr á Blönduósi, framsóknarmaður, hef gaman af pælingum og umræðum, góðum bókum og mörgu fleiru.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Hlutabréf í nýja Gleðibankanum á Skagaströnd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband