Færsluflokkur: Trúmál

3. Kviknað í - og er það bara gott?

Þakið,
þakið,
þakið það logar

Vá! Hér er sko eldur í lagi!

Er í lagi að hugsa svona?

Ástin er eins og sinueldur. ..
Af litlum neista verður oft mikið bál.

Þegar einhver vinur þinn er ástfanginn upp fyrir haus, reynirðu þá ekki að slökkva í? Sinueldar eru hættulegir, þú veist það.

En kannski sleppirðu því að bjarga vini þínum. Þú sérð hvað hann er glaður og þú samgleðst honum. Nema þú sért afbrýðisamur. Eða finnist að hann hafi valið illa, elskan hans sé flagð undir fögru skinni.

Þakið það logar ..

segir smellurinn sem oft heyrist á Lindinni. Og skáldið brosir út undir eyru. Því hér er líf í tuskunum og hér er aðalnáunginn, sá sem heldur uppi öllu fjörinu.

Hver skyldi það nú vera?

Framhaldið á Lindinni segir:

We don't need no water.
Let the Holy Ghost burn!

Við þurfum ekki vatn.
Andi Guðs má alveg brenna!

Hvað finnst þér nú? Samgleðstu .. eða langar þig að tala um fyrir veslings flóninu?

Mundu samt eitt: Biblían segir, að

Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. (1. Jóh. 4:8)

Guð er uppspretta kærleikans í heiminum - og hann heldur uppi fjörinu hjá þeim sem kynnast honum. Hvað eigum við þá að álykta að eldur Guðs sé? Gæti hann verið kærleikur?

Meira um það síðar.

Greinin var send til birtingar í Mbl.
Framhald af "Þakið brennur" (Mbl. 11. okt. '09)
Einnig á fjoregg.blog.is

Gamlar vísur

Jesús talar

Skírt talar Jesús af trú
og tylft sína sendir
en hlustar hugsandi þú
heyrandi svo vendir?

Skírt talaði Jesús um veg
og tylft sína sendi
en hlusta þá hugsandi ég
heyrandi svo vendi?

Skírt talar Jesús um grið
og tylft sína sendir
en hlustum hugsandi við
heyrandi svo
er hann á okkur bendir?

 

Elstu stökurnar:

Drjúgt auðgar blessun Drottins
og dásamlegt það er,
alls engu svo við bætir
örðugt strit manna hér.

Í Guðs kæru kyrrð
og heilögum kima
er sálin ei stirð
né þjökuð af svima.

 

Ritunartími efsta kvæðisins er óljós, en trúlega um 1989 eða svo. Elstu stökurnar eru sennilega frá '88, að minnsta kosti flutti ég þær á nýársfagnaði 1. janúar 1989.

Besta stakan er að mínum dómi "Drjúgt auðgar blessun Drottins." Hún er ort út frá ritningarorði sem segir að

blessun Drottins auðgar

og erfiði mannsins bætir engu við hana. (Orðskv. 10:22)

"Í Guðs kæru kyrrð" á að tjá þá vellíðan sem getur komið yfir okkur þegar við leitum inn í nærveru Guðs. Rétt er þó að taka fram að stundum getum við verið að leita Guðs án þess að finna tilfinningalega fyrir þessari nærveru. Það er sálrænt, það hefur ekkert að gera með að hann sé ekki að láta okkur finna sig. Það eru bara okkar eigin tilfinningar sem trufla og ná ekki að stillast inn á þennan frið.

"Skírt talar Jesús" hefur góðan boðskap, þó eflaust sé bragarhátturinn ekki dýr. Tökum við á móti því sem hann vill gera fyrir okkur?


Viltu upprisu?

Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. (Fil. 3:11)

Finnst þér þetta eftirsóknarvert?

Hvers vegna / hvers vegna ekki?


Gamalt vísukorn

Andann drögum alla daga
og dulið fáum hreint ekki neitt
er það síðan segin saga
að síst vér getum feimninni beitt.

Annar er andardrátturinn
sem óðfluga súrefni veitir
bænin, hún er sá hátturinn
sem hjálpar oss að vera teitir.

En trúðu mér! Að teiti sú
hún tileinkuð verður að vera
herranum sjálfum. Heyr mig nú
við hann sambandið gott reyn gera.    (Ort á annan í jólum 1988)

 

Ég flutti þetta víst á nýársfagnaði KSS (Kristilegra skólasamtaka) 1. janúar 1989. Ég man að vísu ekkert eftir því en ég á blöð síðan ég undirbjó þetta til flutnings. Þar lét ég fylgja vísunni þessi orð:

Það sem ég vildi beina athyglinni að með þessu er:

  • Hvað er að vera teitur/glaður í Drottni?
  • Er það ekki að líta björtum augum á lífið í trausti þess að Guð stendur við sín fyrirheit?
  • Hvernig lifum við?
  • Með því að anda, ekki satt?
  • Hvernig lifum við Drottni?
  • Með því að biðja!
Skýringar einstakra vísuhluta:
  • Feimnin - við getum ekki stöðvað andardráttinn með því að vera feimin við að anda. Lýtur bænin lýtur sama lögmáli? 
  • Teitur = glaður, kátur. Af því er dregið orðið teiti = gleði / gleðskapur. Á þessum árum var í tísku að reyna að íslenska "partý" með því að segja "teiti" í staðinn.
  • Reyn = reyndu. Reyndu að hafa sambandið við Guð gott.

Vonandi getur þetta skapað einhverja umræðu. Hún þarf ekki að vera bara já og amen og hallelúja - við göngum í gegnum þrengingar og áleitnar spurningar hljóta að vakna, getum við einfaldlega treyst Drottni, kunnum við að treysta honum, virkar það, hvað er að treysta honum?

En eitt skilyrði set ég. Allir sem vilja leggja orð í belg þurfa að sýna kurteisi og virða okkur hin. Þetta tek ég fram vegna þess að ein athugasemd barst við síðustu færslu (Kristið blogg / kveðja eftir bloggfrí) sem engan veginn er prenthæf. Ég leyfi henni að standa en eftirleiðis mun ég þurrka út slíkan dónaskap.

Lifið heil.


Kristið blogg / kveðja eftir bloggfrí

Ég hef gert hlé á því að blogga um langt skeið.

Fyrir nokkrum dögum minnti vinur minn mig á að einu sinni var ég mjög ötull á spjallþráðum að ræða trúmál og skrifast þar á við fólk sem hafði ýmsar skoðanir. Sumir vildu bara svör og ég gerði mína tilraun. Aðrir gagnrýndu trúna og ég reyndi að rökræða eftir getu og nennu. Gaman upp að vissu marki, auðvitað verðum við að muna að við breytum ekki svo auðveldlega skoðunum annarra. En sumir vilja einhvern til að rökræða við.

Ætti ég að reyna þetta aftur - og þá hér?

Bara pæling. Skyldi einhver lesa þetta blogg hvort sem er? Sérstaklega eftir svona hlé ...


Um bloggið

Einar Sigurbergur Arason

Höfundur

Einar Sigurbergur Arason
Einar Sigurbergur Arason
Guðfræðingur, býr á Blönduósi, framsóknarmaður, hef gaman af pælingum og umræðum, góðum bókum og mörgu fleiru.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Hlutabréf í nýja Gleðibankanum á Skagaströnd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband