Egypsk mannréttindi?

Maher Ahmad El-Gohary er Egypti sem kærði þá kerfisvillu að hann má ekki skrá sig sem kristinn einstakling í þjóðskrá. Lögmenn á móti honum kröfðust dauðarefsingar yfir honum sem trúvillingi. Dómari vísaði máli hans frá í júní 2009.

Í september 2009 reyndi hann að komast úr landi, en flugvallaryfirvöld í Kaíró gerðu vegabréf hans upptækt. Í mars 2010 dæmdi dómstóll að honum skyldi ekki skilað vegabréfinu.

Dina, dóttir hans, skrifaði Barack Obama bréf í nóvember 2009 í gegnum netsíðu. Hún varð landsfræg fyrir. Hún spurði forsetann hvernig stæði á því að bandarískir múslimar fengju betri meðferð en kristið fólk í Egyptalandi. Hún vonar að Obama geti fengið egypsk stjórnvöld til þess að tryggja trúfrelsi í landinu eða að öðrum kosti fái hún og faðir hennar að flytja til Bandaríkjanna.

En frægð Dinu gerir hana ekki örugga. Fyrir fáum vikum fóru feðginin saman á markað. Allt í einu tekur El-Gohary eftir að reyk leggur frá jakka dóttur hans. Einhver hafði hellt sýru á jakkann.

Hann hafði snör handtök og henti jakkanum burt. En eftir þetta er Dina mjög hrædd við að fara út úr húsi.

Faðir hennar fær hvergi vinnu vegna baráttu sinnar gegn kerfinu. Hann þarf að fara huldu höfði til að komast hjá því að verða drepinn, því alls staðar má finna ofstækismenn sem telja hann réttdræpan. Og ekki komast þau úr landi vegabréfslaus.

Nánar hér: http://www.opendoors.no/sider/tekst.asp?side=4230


Þjóðin leitar að skörulegri forystu

Við Íslendingar erum í svipaðri stöðu og Bretar í upphafi Hitlersstríðsins. Ógnin er bara ekki Hitler heldur hrun heimilanna í landinu. Við erum búin að sjá að Chamberlain er ekki að ráða við verkefnið. Þannig er búið að koma stjórninni frá sem sat þegar hrunið varð.

Þegar Chamberlain fór frá þá tók Churchill við - þannig var það hjá Bretum. En við erum ekki að sjá neinn Churchill við stjórnvölinn hjá okkur. Ég er ekki að tala um að við þurfum að vera í einhverri leiðtogadýrkun, en við horfum á stjórnmálaleiðtogana sem stýra landinu og okkur finnst þeir ekki vera nógu skörulegir. Ágætisfólk en er að stjórna af veikum mætti. Okkur finnst að betur megi ef duga skal.

Það vantar forystu sem vekur okkur tiltrú og fær okkur til að hlusta og sannfærir okkur um að það sé raunverulega verið að gera það sem gera þarf. Og þó Jóhanna og Steingrímur J. séu gott fólk þá vekja þau okkur ekki þessa öryggiskennd.

Svo lítum við til stjórnarandstöðunnar - og spyrjum: Eru þarna leiðtogarnir sem við þurfum? Kunna þau betur að leysa málin?

Í dag er framsókn ekki að slá þann tón sem sannfærir kjósendur. Kjósendur eru að leita að forystu sem veit hvað hún er að gera og getur sannfært okkur hin um það. Churchill okkar tíma. Þarf ekki að vera einn einstaklingur, getur verið forystusveit, en þarf að sameina þessa kosti.

Málið snýst ekki um það hvort maðurinn í brúnni heitir Sigmundur Davíð eða eitthvað annað. Málið snýst um það hvort hann og félagar hans fá okkur hin til að hlusta og til að treysta sér. Gallinn er að flestir þeir sem eru ekki innviklaðir í Framsóknarflokkinn hætta að hlusta þegar Sigmundur byrjar að tala. Telja að hann sé alltaf með sömu tugguna. Sama gerðist með Guðna Ágústsson. Báðir eru góðir menn. Sigmundur þarf að taka sér tak og byrja að tala þannig að fólk leggi við hlustir.


Nýjustu pistlar mínir um trúmál verða eftirleiðis á trumal.is

Skrif mín um trúmál munu í bili færast yfir á vefsíðuna trumal.is fyrir þá sem langar að fylgjast með. Ég tel að þar sé betri umræðuvettvangur til að fá viðbrögð.

Niðurskurður eða markvissari nýting fjármuna? Um frábæra grein!

Það er ekki sama hvernig við minnkum ríkisútgjöld. Ég var að lesa alveg frábæra grein í sunnudags-Mogganum. Hún er líka öllum aðgengileg á vefnum (sjá hér). Ég hvet ykkur öll til að lesa hana og halda svo þingmönnum okkar við efnið, gefa þeim engan frið fyrr en þeir vinna vinnuna sína.

Þessi grein segir það sem við mörg hugsum - að flatur niðurskurður er ekki lausnin heldur að nýta betur peningana í samneyslunni. En höfundurinn rökstyður þetta snilldarlega - bæði í orðum og skýringarmyndum.

Við erum í raunverulegu hættuástandi - það eiga allir að spara alls staðar, segja upp fólki á sjúkrahúsum til að hagræða í þeim gjaldalið en heildarsparnaðurinn er miklu minni því ríkið á auðvitað að borga meiri atvinnuleysisbætur í staðinn. Þetta hljómar eins og gömlu Kleppara-brandararnir en er samt bláköld alvara. Og mig grunar að margt vistfólkið á Kleppi væri nógu skynsamt til að sjá grunnhyggnina í þessum flata niðurskurði.

Ég hvet alla til að lesa þessa grein og gera svo eitthvað í málunum, halda þessu að ráðamönnum þangað til þeir sjá að sér.


3. Kviknað í - og er það bara gott?

Þakið,
þakið,
þakið það logar

Vá! Hér er sko eldur í lagi!

Er í lagi að hugsa svona?

Ástin er eins og sinueldur. ..
Af litlum neista verður oft mikið bál.

Þegar einhver vinur þinn er ástfanginn upp fyrir haus, reynirðu þá ekki að slökkva í? Sinueldar eru hættulegir, þú veist það.

En kannski sleppirðu því að bjarga vini þínum. Þú sérð hvað hann er glaður og þú samgleðst honum. Nema þú sért afbrýðisamur. Eða finnist að hann hafi valið illa, elskan hans sé flagð undir fögru skinni.

Þakið það logar ..

segir smellurinn sem oft heyrist á Lindinni. Og skáldið brosir út undir eyru. Því hér er líf í tuskunum og hér er aðalnáunginn, sá sem heldur uppi öllu fjörinu.

Hver skyldi það nú vera?

Framhaldið á Lindinni segir:

We don't need no water.
Let the Holy Ghost burn!

Við þurfum ekki vatn.
Andi Guðs má alveg brenna!

Hvað finnst þér nú? Samgleðstu .. eða langar þig að tala um fyrir veslings flóninu?

Mundu samt eitt: Biblían segir, að

Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. (1. Jóh. 4:8)

Guð er uppspretta kærleikans í heiminum - og hann heldur uppi fjörinu hjá þeim sem kynnast honum. Hvað eigum við þá að álykta að eldur Guðs sé? Gæti hann verið kærleikur?

Meira um það síðar.

Greinin var send til birtingar í Mbl.
Framhald af "Þakið brennur" (Mbl. 11. okt. '09)
Einnig á fjoregg.blog.is

2. Þakið brennur

The roof,
the roof,
the roof is on fire

segir í smell sem heyrist oft á öldum ljósvakans.

Nú er okkur í fersku minni þegar kviknaði í þakinu á Höfða. Skelfileg tilhugsun þegar þakið brennur. Á stuttri stundu getur allt húsið fuðrað upp ef ekki tekst að slökkva eldinn með snarræði.

Það fór allt vel með Höfða - sá eldur var slökktur.

En okkur finnst að ríkið okkar sé verr sett. Hér logar eldur, það er eins og þakið brenni, og þetta er ónotaleg tilhugsun. Við vitum ekki hvernig úr þessu mun rætast, og það fyllir okkur óhug. Kannski reynum við bara að ýta þessari hugsun frá okkur og segja nógu oft: Þetta bjargast. Því áhyggjur gera okkur ekkert gott.

Þakið,
þakið,
þakið það logar

sagði slagarinn.

En það merkilega er að skáldinu finnst það bara gott. Vá! Hér er sko eldur í lagi!

Er ekki allt í lagi með þennan náunga? Datt hann á stein og rotaðist? Hvernig getur það verið gott að þakið sé að brenna?

Í ljós kemur að skáldið hugsar sér óeiginlegan eld, líkingin er: Hér er sko líf í tuskunum.

Meira um það síðar. Næst veltum við því upp hvort þessi eldur sé af hinu góða.

Framhald af "Áttu eld?" (Mbl. 2. okt. '09)
og birtist í Mbl. 11. okt. '09.

Greinin er einnig á fjoregg.blog.is


1. Áttu eld?

Einnig á fjoregg.blog.is

Kæri vinur.

Getur þú hjálpað þurfandi um eld?

Ég er þó ekki að tala um vindlinga. Ég er að biðja um eld sem hjálpar í neyð landans.

Gamall smellur talar um ástarsamband sem hófst á því að ungur maður bað laglega stúlku um eld. Skáldið leggur út af þessu og segir:

Ástin er eins og sinueldur.
Ástin er segulstál.
Af litlum neista verður oft mikið bál.

Lagið vann söngvakeppni sjónvarpsins 1981 - sem var reyndar ekki tengd Eurovision. Þetta var áður en Ísland var "memm". Pálmi Gunnarsson söng, Guðmundur Ingólfsson orti.

En ástin er ekki bara þessi rómantík milli karls og konu. Ástin er svo margt fleira. Móðurást, föðurást, vinátta  - eða geturðu verið vinur þess sem þú hatar? Í stuttu máli sagt: Kærleikurinn er hreyfiafl tilverunnar. Og segulstálið sem heldur okkur saman þegar á bjátar.

Áttu eld til að hlýja þeim sem eygja enga von?
Og hvaða eldsneyti mælirðu með, svo eldurinn kulni ekki út? Hvernig telur þú best að kveikja eldinn og viðhalda honum?

Þessi pistill var sendur Morgunblaðinu til birtingar
og birtist föstudaginn 2. október 2009.
Upphaf að greinaflokki.

Guð veldur ekki kreppunni - en hann veldur henni

Hvar er Guð í kreppunni?

Sigurbjörn Einarsson sagði einu sinni í ræðu um þjáninguna eitthvað á þessa leið:

Guð veldur ekki böli,
en hann veldur því.

Þetta er að sjálfsögðu orðaleikur.

Að valda getur þýtt fleira en eitt.

Guð veldur ekki erfiðleikum / óhamingju / þjáningu - hann orsakar þetta ekki. Hann ákveður ekki að nú eigi að gerast hræðilegir hlutir fyrir okkur.

En hann veldur því. Hann kann að ráða fram úr bölinu. Hann hefur vald á aðstæðunum. Við getum kvabbað á honum, beðið hann um hjálp, lausn.

Í Jeremía 29 stendur:

11Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. 12Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. 13Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta 14læt ég yður finna mig, segir Drottinn. Ég mun snúa við högum yðar ...

Trúir þú þessu?


Gamlar vísur

Jesús talar

Skírt talar Jesús af trú
og tylft sína sendir
en hlustar hugsandi þú
heyrandi svo vendir?

Skírt talaði Jesús um veg
og tylft sína sendi
en hlusta þá hugsandi ég
heyrandi svo vendi?

Skírt talar Jesús um grið
og tylft sína sendir
en hlustum hugsandi við
heyrandi svo
er hann á okkur bendir?

 

Elstu stökurnar:

Drjúgt auðgar blessun Drottins
og dásamlegt það er,
alls engu svo við bætir
örðugt strit manna hér.

Í Guðs kæru kyrrð
og heilögum kima
er sálin ei stirð
né þjökuð af svima.

 

Ritunartími efsta kvæðisins er óljós, en trúlega um 1989 eða svo. Elstu stökurnar eru sennilega frá '88, að minnsta kosti flutti ég þær á nýársfagnaði 1. janúar 1989.

Besta stakan er að mínum dómi "Drjúgt auðgar blessun Drottins." Hún er ort út frá ritningarorði sem segir að

blessun Drottins auðgar

og erfiði mannsins bætir engu við hana. (Orðskv. 10:22)

"Í Guðs kæru kyrrð" á að tjá þá vellíðan sem getur komið yfir okkur þegar við leitum inn í nærveru Guðs. Rétt er þó að taka fram að stundum getum við verið að leita Guðs án þess að finna tilfinningalega fyrir þessari nærveru. Það er sálrænt, það hefur ekkert að gera með að hann sé ekki að láta okkur finna sig. Það eru bara okkar eigin tilfinningar sem trufla og ná ekki að stillast inn á þennan frið.

"Skírt talar Jesús" hefur góðan boðskap, þó eflaust sé bragarhátturinn ekki dýr. Tökum við á móti því sem hann vill gera fyrir okkur?


Viltu upprisu?

Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. (Fil. 3:11)

Finnst þér þetta eftirsóknarvert?

Hvers vegna / hvers vegna ekki?


Næsta síða »

Um bloggið

Einar Sigurbergur Arason

Höfundur

Einar Sigurbergur Arason
Einar Sigurbergur Arason
Guðfræðingur, býr á Blönduósi, framsóknarmaður, hef gaman af pælingum og umræðum, góðum bókum og mörgu fleiru.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Hlutabréf í nýja Gleðibankanum á Skagaströnd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband