1. Að biðja fyrir ástandinu. 2. Að pæla í tilgangi lífsins - Alfa.

1. Bænin og ástandið

Eins og við öll vitum, þá er ástand íslenskra efnahagsmála grafalvarlegt.

Ég legg til að við biðjum fyrir þessu. Við þurfum ekki að vera sterktrúuð til þess að biðja. Dæmi:

Lögfræðingurinn Nicky Gumbel fór einu sinni til Bandaríkjanna þegar hann var táningur. Farangurinn hans týndist og þar með peningarnir hans og vasabókin. Ekki gott! Hann eyddi tíu dögum á hippanýlendu í tjaldi með róna, fór svo á flakk og vafraði um stræti og torg. Svo datt honum í hug að biðja Guð að hjálpa sér að hitta einhvern sem hann þekkti. Hann trúði samt ekkert á Guð! Stuttu síðar hitti hann gamlan skólafélaga þegar hann steig upp í rútu, sá lánaði honum pening og þeir héngu saman í fáeina daga. Nicky hugsaði ekkert um að þetta gæti verið bænasvar, hann áleit þetta hreina tilviljun.

2. Nicky og Alfa
Nicky er þekktastur fyrir að vera höfundur svokallaðs Alfa-námskeiðs, sem hefur á nokkrum árum orðið svakalega vinsælt um öll lönd. Það snýst um að pæla í lífinu og tilgangi þess, og hvort trúin eigi einhver svör í þeim efnum. Ég hef farið á Alfa og líkaði það svo vel að ég er orðinn áskrifandi, ég fer aftur og aftur hvenær sem ég get. Það er alltaf byrjað á að borða saman og þetta er einhvern veginn svo "kósý", það kemur fólk úr ýmsum áttum á hvert námskeið, og ekkert endilega sterktrúað. Tilgangurinn er að pæla í hlutunum, en ekki að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram!

Kirkjan sem byrjaði að vera með Alfa um 1990 var stuttu áður í andarslitrunum, í hverja messu mættu örfáar hræður sem mátti telja á fingrunum. Kannast einhver við slíkar messur? - Presturinn ákvað að breyta til og um líkt leyti var byrjað með Alfa. Ég heimsótti þessa kirkju annað hvort 2002 eða 2003. Þá voru haldnar þarna fimm samkomur á hverjum einasta sunnudegi, og húsfyllir á þeim öllum. Mér skilst að þannig sé ástandið búið að vera í mörg ár.

Ég á bækur frá þessari kirkju. Ein þeirra heitir Spurningar lífsins og þar er sagan af Nicky og týnda farangrinum (bls. 67). Ég á líka bækur sem eru með stuttum sögum frá fólki sem hefur farið á Alfa. Einn segir frá því að hann hafi farið með hálfum huga á fyrsta kvöldið og búist við því að hitta nokkrar hræður, miðaldra/gamalt fólk, frímerkjasafnara með hornspangagleraugu og svona annað álíka fólk sem er ekki þverskurðurinn af samfélaginu. Hann rak í rogastans þegar hann mætti í kirkjuna. Þar var fjölmenni, fólk á öllum aldri, mjög margt ungt fólk eins og hann sjálfur; síðast en ekki síst - þetta var venjulegt fólk.

Hefur þú farið á Alfa?

3. Biðjum fyrir núverandi ástandi
Það geta allir beðið - því fleiri, því betra. Ef þú hefur spurningar um bænina, þá hvet ég þig til að kíkja á Alfa. Það er líka góður vettvangur til að skoða hvort trúin stenst; býður upp á opnar pælingar og fordómalausar; allar skoðanir velkomnar (fer kannski eftir leiðurum en víðast er þetta svona). Spyrðu einhvern sem hefur verið á Alfa hvernig var.

Ég lýk þessum pistli á að setja fram nokkur bænarefni. Ef þú ert ekki vanur að biðja, þá hvet ég þig til að velja eitt eða tvö til að biðja fyrir - hvort sem þau eru af þessum lista eða bara eitthvað sem þér liggur á hjarta.

"Neyðin kennir naktri konu að spinna" segir máltækið, og eins er það með bænina - þegar við sjáum neyðina blasa við, þá kennir það okkur að biðja. Þér er líka velkomið að senda mér spurningar á þennan umræðuþráð eða á mrdinth@gmail.com.

Bænalisti

  • Ríkisstjórnin - viska og handleiðsla frá Guði.
  • Bankastjórn Seðlabankans - viska og handleiðsla.
  • Alþingi (þú getur valið einstaka þingmenn að biðja fyrir ef þú vilt).
  • Kosningar - hvenær þær verði (við skipum Guði ekki fyrir! En við megum biðja hann að leiða fram kosningar á þeim tíma sem hann sér að er til góðs).
  • Ef stjórnarskipti bráðlega: Biðjum þá að næsta ríkisstjórn standi sig betur en ekki verr.
  • Biðjum um stjórnmálamenn sem vinna sér inn traust þjóðarinnar með því að starfa af heilindum og skynsemi og sem við finnum að erum að hugsa um okkur, ekki sjálfa sig eða einhverja hagsmunaklíku.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, ég ætla að prufa að biðja

Brúnkolla (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 10:12

2 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Einar, ég verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Spurningar lífsins. T.d. er umfjöllunin um áreiðanleika NT, Jesú, meinta upprisu hans og spádómana virkilega léleg. Hefur þú fundið einhverjar villur í öll þau skipti sem þú hefur farið á Alfa-námskeið?

En hefur þú lært að tala tungum á þessum námskeiðum?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 28.10.2008 kl. 16:05

3 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Sæll Hjalti. Leitt að heyra það, en segðu mér endilega hvað þér fannst svona lélegt við þessa umfjöllun svo ég geti sett mig í þín spor ef mér er það unnt.

Vel á minnst - varst þú einu sinni á spjallþráðum KSS (Kristileg skólasamtök)? Eða er ég að rugla þér saman við annan Hjalta?

Tungutal lærði ég áður, en ég er ekki mikið að tala um það við aðra. Páll postuli vildi meina að maður ætti ekki að nota slíka kunnáttu til að slá sig til riddara, þykjast eitthvað merkilegri en aðrir, og ég er bara alveg sammála honum. Ég þarf ekki að vera merkilegri en aðrir.

Hjálpar þetta? (Eins og ég segi, þá þyrfti ég frekari upplýsingar um þína skoðun og upplifun.)

Einar Sigurbergur Arason, 28.10.2008 kl. 22:33

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

T.d. fannst mér afar slappt að fullyrða ú í loftið að Jesús hafi uppfyllt "yfir 300 spádóma". Dæmin um uppfyllta spádóma voru síðan afskaplega gölluð, t.d. talað um Míka 5.2.

Ég hef ekki bókina við hendina, þannig að ég get ekki nefnt fleiri sérstök dæmi. Minnir reyndar að tal um áreiðanleika Nt hafi bara verið að fjalla um textafræði og eftir það var bara gefið að alllt í Nt væri satt og rétt.

Það er talað um afar ósennilega hluti eins og um staðreyndir væri að ræða í sambandi við upprisuna, t.d. að hermenn hafi gætt grafarinnar.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 29.10.2008 kl. 14:06

5 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Þegar ég byrjaði í guðfræðinni, þá las ég grein sem var á svo miklu fræðimáli að ég skildi ekki bofs í henni. Ég kann því að meta bækur sem eru skrifaðar á mannamáli.

Spurningar lífsins er skrifuð fyrir almennan lesanda. Hún er líka kennslubók fyrir Alfa.

Hún kemur ekki í staðinn fyrir aðgang að fræðimönnum og ítarefni um það sem maður vill fræðast betur um. Hún er auðskiljanleg, en kannski ekki djúp.

Getur verið að þú sért að leita að bókum sem eru dýpri fræðipælingar, Hjalti?

Ég get haldið þessu spjalli áfram síðar, það er orðið framorðið í dag. Þetta er áhugavert. Við munum þó aldrei sanna eða afsanna kristindóminn, hversu djúpt sem við förum í þetta.

Einar Sigurbergur Arason, 1.11.2008 kl. 00:17

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Getur verið að þú sért að leita að bókum sem eru dýpri fræðipælingar, Hjalti?

Einar, málið er ekki að Alfa-bókin er ekki með djúpar fræðipælingar, málið er að hún er með rangar pælingar og fullyrðingar sem er hvergi hægt að fá góð rök fyrir.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 1.11.2008 kl. 01:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Sigurbergur Arason

Höfundur

Einar Sigurbergur Arason
Einar Sigurbergur Arason
Guðfræðingur, býr á Blönduósi, framsóknarmaður, hef gaman af pælingum og umræðum, góðum bókum og mörgu fleiru.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Hlutabréf í nýja Gleðibankanum á Skagaströnd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband