Mikil umræða um framkomu Breta

Sælt veri fólk. Ég er svona að prófa að blogga, sé til hvað ég verð duglegur við það.

Það fyrsta sem leitar á hugann er atburðarás nýliðinna daga, til dæmis klaufaleg samskipti Íslendinga og Breta. Ég hef að gamni flett upp nokkrum enskum fréttasíðum, til dæmis greinum Eiríks Bergmanns Einarssonar í The Guardian, "Britain has betrayed Iceland.." og "Forced into Russia's arms". Ég þekki engin deili á þessum strák en mér finnst hann sýna gott framtak í að reyna að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri í breskum fréttamiðlum. Greinilegt er að sjónarmiðum breskra lesenda skiptir svolítið í tvö horn, sumir taka hanskann á lofti fyrir Brown og telja að Íslendingar komi fram eins og þjófar sem vilji ekki borga, aðrir sýna okkur samhug og skilning. Margir þeirra gagnrýna stjórnmálamenn almennt og telja að bæði Brown og íslenskir ráðamenn eigi að fá falleinkunn.

Ég tek undir þetta síðasttalda og held að það væri um margt góð hugmynd eins og Björn Bjarnason kom fram með í Mannamáli að það mætti kjósa á næsta ári.

Er til annar valkostur við núverandi stjórn?

Mér finnst þó líka að stjórnarandstaðan þurfi vissa andlitslyftingu. Hún þarf að bjóða upp á nokkra vel traustvekjandi leiðtoga sem má hugsa sér að geti starfað saman.

Og svo verður tæplega mynduð stjórn án þátttöku annars af þeim flokkum sem nú er í ríkisstjórn.

Hvað með Framsókn?

Sjálfur er ég framsóknarmaður, og ég hef vissar áhyggjur af mínum flokki. Hann er í tilvistarkreppu eftir margra ára forystu Halldórs Ásgrímssonar. Með fullri virðingu fyrir Halldóri þá var hann ekki sá leiðtogi sem flokkurinn þurfti. Ólýðræðislegur leiðtogi og púkkaði upp á menn eins og Finn Ingólfsson.

Því var það gleðiefni þegar Jón Sigurðsson kom inn í stjórnmálin og tók við keflinu. Hann vissi greinilega sínu viti og var leiðtogi sem getur vakið traust manna, ásamt því að vera lýðræðislegur og góður í samstarfi. Það var slæmt að missa hann úr forystusveitinni. Ef Framsóknarflokkurinn kemst aftur í ríkisstjórn í náinni framtíð þá legg ég til að Jón verði skipaður fjármálaráðherra.

Guðni er fínn karl og má alveg vera formaður mín vegna, en flokkurinn þarf að gefa til kynna að ef honum verði treyst til stórra verka á nýjan leik, þá fari ekki í sama farið og hjá Davíð og Halldóri. Að Guðni og Valgerður verði forystusveitin við næstu kosningar finnst mér ekki spennandi forysta. Bæði voru ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs.

Flokkurinn býður upp á mjög áhugaverða nýja kandídata eins og Birki Jón Jónsson og Bjarna Harðarson. Ég held að hann þurfi að gefa til kynna fyrir næstu kosningar að slíkir menn verði í framvarðarsveitinni. Og ég tel brýnt að fá Jón Sigurðsson aftur í framboð í Reykjavík.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda bloggar

Adda bloggar, 22.10.2008 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Sigurbergur Arason

Höfundur

Einar Sigurbergur Arason
Einar Sigurbergur Arason
Guðfræðingur, býr á Blönduósi, framsóknarmaður, hef gaman af pælingum og umræðum, góðum bókum og mörgu fleiru.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Hlutabréf í nýja Gleðibankanum á Skagaströnd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband